Neðanjarðarlestarstöðvar rýmdar í Lundúnum

Neðanjarðarlestarstöð í Lundúnum.
Neðanjarðarlestarstöð í Lundúnum. AP

Breska sjónvarpsstöðin Sky News segir, að röð atvika hafi orðið nálægt neðanjarðarlestarstöðvunum í Warren Street, Oval og Shepherd's Bush í Lundúnum og hafi þær verið rýmdar. Haft var eftir fólki, að það hafi verið látið yfirgefa neðanjarðarlestir og reykur hafi sést liðast út úr lest. Ekki hafa borist neinar tilkynningar um að fólk hafi særst en sjúkrabílar voru sendar til stöðvanna. Einnig hafa borist fréttir af sprengingu í strætisvagni í austurhluta borgarinnar. Lögregla er sögð telja, að sprengjukveikjubúnaður hafi sprungið en ekki raunverulegar sprengjur.

Sjónvarsstöðin hafði eftir heimildarmönnum, að talið sé að naglasprengja hafi sprungið á stöðinni við Warren Street. Farþegar á stöðinni töldu sig heyra byssuskot og að maður hefði flúið af brautarpallinum.

Sky hafði eftir Ivan McCracken, sem var í neðanjarðarlest um hádegisbil, að uppnám hefði orðið í lestinni eftir að farþegi sagðist hafa séð bakpoka springa. McCkracken hefði fundið reykjarlykt og fólk hefði komið hlaupandi inn í lestarklefann þar sem hann var.

McCracken sagðist hafa rætt við Ítala sem var að hugga konu eftir að brautarstöðin hafði verið rýmd. Sá hefði sagt sér, að maður hefði setið með bakpoka í fanginu og pokinn hefði skyndilega sprungið. Sprengingin var ekki mikil en gat kom á pokann. Maðurinn hefði kallað upp að eitthvað hefði brugðist en farþegar í klefanum lögðu á flótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert