Lögregla staðfestir að maður hafi verið skotinn á brautarpalli í Lundúnum

Lögreglumenn á brautarpalli í Lundúnum í morgun.
Lögreglumenn á brautarpalli í Lundúnum í morgun. AP

Talsmaður Lundúnalögreglunnar hefur staðfest, að lögreglumenn hafi skotið karlmann á Stockwell neðanjarðarbrautarstöðinni í Lundúnum í morgun laust eftir klukkan 9 að breskum tíma, 10 að íslenskum tíma. Sjónarvottur segir að maðurinn hafi látið lífið en lögregla hefur ekki staðfest það.

Sky fréttastofan segir einnig að vopnaðir lögreglumenn hafi umkringt mosku í austurhluta Lundúna sagt íbúum í nágrenninu að halda sig innandyra. AP fréttastofan hefur eftir leiðtoga múslima á svæðinu að sprengjuhótun hafi borist.

Sky segir, að talið hafi verið að maðurinn, sem skotinn hafi verið á Stockwell-stöðinni hafi ætlað að fremja sjálfsmorðssprengjuárás og lögreglan hafi skotið manninn þegar hann var að stíga inn í lest. Farþegar sögðu að maðurinn, sem hafi litið út fyrir að vera Suður-Asíumaður, hafi hlaupið inn í lest og lögreglumenn hafi veitt honum eftirför. Maðurinn hafi hrasað og þá hafi lögreglumennirnir skotið hann.

„Þeir skelltu honum á gólfið og skutu fimm skotum. Hann er látinn," sagði Mark Witby við breska ríkisútvarpið, BBC. „Hann var eins og innikróaður refur. Hann virtist skelfingu lostinn."

Witby sagðist ekki hafa séð manninn með bakpoka eða tösku en hann hefði verið í þykkri yfirhöfn sem virtist bólstruð.

Chris Wells, 28 ára, sagði að 20 svartklæddir lögreglumenn með stórar byssur hefðu verið á brautarstöðinni. Skyndilega hefði maður stokkið yfir öryggisgrind og lögreglumennirnir hefðu veitt honum eftirför.

„Við vorum í lestinni og síðan heyrðum við skyndilega einhvern hrópa: Komið ykkur út, og síðan heyrðum við skot," sagði Briony Coetsee.

Alistair Drummond, talsmaður sjúkrabílaþjónustu Lundúna, sagði að bráðaliðar hefðu verið kallaðir að stöðinni klukkan 10:10.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert