Lundúnabúar segja lífið halda áfram

Shepherd's Bush lestarstöðin í Lundúnum var rýmd eftir sprengingu þar …
Shepherd's Bush lestarstöðin í Lundúnum var rýmd eftir sprengingu þar í gær. AP

Íbúar Lundúna, sem fóru til vinnu sinnar í morgun, höfðu varann á þegar þeir stigu inn í neðanjarðarlestir borgarinnar. Margir segja lífið halda áfram þrátt fyrir yfirvofandi hryðjuverkaógn.

„Þú getur séð af hátttalagi fólks að það er hrætt,“ sagði Keith Foley, í samtali við fréttastofu Associated Press morgun sem hann var á leið til vinnu sinnar. Foley, sem er 37 ára, tók daginn snemma til að taka eina af fyrstu lestunum af ótta við að ef til hryðjuverka kæmi yrði á háannatímanum. Hann hyggst snúa aftur til síns heima með leigubíl síðdegis.

Aðrir Lundúnabúar neituðu hins vegar að láta hryðjuverkaógnina trufla líf sitt. Mia Clarkson, sem er 24 ára og starfsmaður hjá skartgripaframleiðanda í borginni, sagði lífið halda áfram þrátt fyrir að hryðjuverk hafi verið framin í tvígang með tveggja vikna millibili. „Maður heldur áfram að lifa, er það ekki?“ sagði hún. Aðrir tóku undir með henni og sögðu, að fólk sé áhyggjufullt. „Maður horfir öðrum augum á fólk,“ sagði annar íbúi borgarinnar sem ákvað að taka lest til vinnu sinnar í morgun. „Þótt þetta íþyngi manni ekki, þá er maður á verði,“ sagði hann.

Ein neðanjarðarlestarstöð í Lundúnum er enn lokuð eftir hryðjuverkin, sem framin voru 7. júlí síðastliðinn og óheimilt er að fara á nokkra staði á hinum lestastöðvunum, en þar vinnur lögreglan að rannsókn á vettvangi.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði þegar fjórar smávægilegar sprengingar urðu í borginni í gær, að stöðvarnar yrðu opnaðar fljótlega og hvatt hann landa sína til að láta hryðjuverkin ekki hafa áhrif á líf sitt.

Lögreglumaður og lögregluhundur við Warren lestarstöðina í gær.
Lögreglumaður og lögregluhundur við Warren lestarstöðina í gær. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert