Sjónarvottur segir sjálfsmorðsárás hafa mistekist

Lögregla fylgir fólki út úr sjúkrahúsi en talið var að …
Lögregla fylgir fólki út úr sjúkrahúsi en talið var að einn af árásarmönnunum hefði falið sig þar. Reuters

Kaupsýslumaður nokkur lýsir því í samtali við breskt dagblað hvernig hann sá meintan sprengjuárásarmann í neðanjarðarlest í gær. Segir kaupsýslumaðurinn, að hann telji að maðurinn hafi ætlað að fremja sjálfsmorðsárás því hann hafi greinilega orðið afar undrandi og fengið hálfgert áfall þegar sprengjan sem hann var með sprakk ekki.

Abisha Moyo sagði við Daily Mail, að hann hefði verið í neðanjarðarlest nálægt Shepherd's Bush brautarstöðinni í vesturhluta Lundúna þegar þetta gerðist. Hann sagðist hafa verið að tala í farsíma þegar hann heyrði hvell, líkt og byssuskot, í vagninum.

„Ég snéri mér við og þarna lá maður á gólfinu með hendurnar teygðar frá sér í Jesú-stellingu; hann lá á bakinu ofan á svörtum og grænum bakpoka. Hann var með lokuð augun og það sást reykur koma út úr bakpokanum. Nokkrar stúlkur veinuðu, það var togað í neyðarhemilinn og allir flýttu sér út úr vagninum og fram í lestina.

Ég var ekki viss um hvað hefði komið fyrir manninn og hélt að hann hefði verið skotinn. Ég gekk að honum og spurði: Er allt í lagi með þig? En hann svaraði engu og lá áfram með augun lokuð," sagði Moyo.

Maðurinn virtist vera 19-20 ára, af blönduðum kynþætti, sléttrakaður og vel klæddur, í gallabuxum, stuttermabol og með derhúfu."

„Það var rifa neðst á bakpokanum og þar sást í undarlegan stauka. Mér sýndist ég sjá brúsa eða hylki og það fannst sterk ediklykt."

Moyo gekk að svo búnu yfir í næsta vagn en sá þá að ungi maðurinn settist upp. „Hann virtist dasaður og ringlaður og afar utan við sig. Hann settist við hliðina á pokanum í 5-6 sekúndur og kom síðan til okkar en skildi pokann eftir. Hann settist niður í vagninum okkar og gekk síðan aftur til baka. Ég sá að það stóðu vírar út úr bolnum hans; þetta líktist vírum fyrir heyrnartól en ég sá beran kopar á endanum. Það var þá sem ég hugsaði með mér: Guð minn góður, hann er sjálfsmorðssprengjumaður!"

Ungi maðurinn skildi bakpokann eftir og stökk út úr lestinni, sem hafði nú stöðvast, út á teinana og gekk í burtu. Moyo sagðist fyrst hafa ætlað að elta hann en hætti við þegar aðrir farþegar bentu á að hann kynni að vera vopnaður.

Fjórar litlar sprengingar urðu í Lundúnum í gær, þrjár í neðanjarðarlestum og ein í strætisvagni. Engan sakaði í sprengingunum og telur lögregla, að hugsanlega hafi aðeins hvellhetturnar á sprengjunum sprungið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert