Húsleit í Lundúnum í tengslum við hryðjuverkarannsókn

Lögregla í Bretlandi sagðist hafa gert húsleit í íbúð í Lundúnum nú síðdegis í tengslum við rannsókn á misheppnuðum sprengjutilræðum í neðanjarðarlestum og strætisvagni á fimmtudag. Enginn var handtekinn, að sögn lögreglunnar.

Að sögn talsmanns lögreglunnar var farið inn í hús í suðvesturhluta borgarinnar og leit stendur enn yfir.

Húsið þar sem leitin er gerð er ekki langt frá Stockwell hverfinu þar sem tveir menn hafa verið handteknir í tengslum við leit lögreglu að sprengjumönnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert