Brasilíumaðurinn skotinn átta skotum

Lögreglumenn hafa gert húsleitir í nokkrum íbúðum í Lundúnum í …
Lögreglumenn hafa gert húsleitir í nokkrum íbúðum í Lundúnum í leit að mönnum, sem reyndu að gera sprengjuárásir sl. fimmtudag. Reuters

Innra eftirlit bresku lögreglunnar greindi frá því í dag að lögregla hefði skotið saklausan Brasilíumann, sem lögregla taldi tengjast hryðjuverkaárásunum í borginni, átta skotum. Rannsókn er hafin á dauða mannsins, sem hét Jean Charles de Menezes, en áður höfðu vitni sagt að þau teldu að hann hefði verið skotinn fimm skotum.

Menezes hafði dvalið í Bretlandi undanfarin þrjú ár en hann fékk námsmannalandvistarleyfi. Það var nýlega útrunnið og er leitt að því líkum, að það sé ástæðan fyrir því að hann lagði á flótta þegar lögregla skipaði honum að nema staðar utan við neðanjarðarbrautarstöð í Stockwell í Lundúnum á föstudag. Lögregla veitti manninum eftirför út á brautarpall og skaut hann þegar hann reyndi að stökkva inn í lest.

Fjölskylda Menezes hefur hótað því að höfða skaðabótamál á hendur lögreglunni. „Þeir þurfa að gjalda fyrir það sem þeir gerðu með margvíslegum hætti, því ef þeir þurfa þess ekki þá munu þeir drepa fjölda saklausra manna," sagði Alex Pereira, frændi Menezes, við breska ríkisútvarpið BBC. „Þeir drápu frænda minn, þeir gætu drepið hvern sem er."

Faðir Menezes sýnir mynd af syni sínum.
Faðir Menezes sýnir mynd af syni sínum. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert