Einn handtekinn vegna tilraunar til hryðjuverka í Lundúnum

Mynd úr öryggismyndavél sem breska lögreglan gerði opinbera í dag …
Mynd úr öryggismyndavél sem breska lögreglan gerði opinbera í dag sýnir mann sem talinn er hafa reynt að sprengja sprengju við Shepherd's Bush. AP

Breska lögreglan hefur gert opinberar nýjar myndir úr öryggismyndavélum sem sýna mann sem grunaður er um að hafa komið fyrir sprengju á Shepherd’s Bush í Lundúnum í siðustu viku. Peter Clarke, yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar, sagði að einn maður hafi þegar verið handtekinn og væri þriggja leitað. Staðfest hefur verið að maðurinn sem handtekinn var í húsi í Hay Mills í Birmingham í nótt sé Yasin Hassan Omar. Er hann talinn hafa reynt að sprengja sprengju í lestarstöðinni við Warren Street. Hefur hann verið fluttur í vistun í öryggisfangelsi í Lundúnum.

Það voru íbúar hverfisins í Hay Mills, sem bentu lögreglu á Omar, en þeir töldu hann líkjast manni á mynd úr öryggismyndavél, sem lögreglan gerði opinbera í vikunni. Skömmu eftir að Omar var handtekinn á heimili sínu í nótt réðst lögregla til inngöngu í annað hús í nágrenninu. Þrír voru handteknir í samræmi við lög um aðgerðir gegn hryðjuverkum, sem samþykkt voru árið 2000. Þeir hafa verið vistaðir í gæsluvarðhald á meðan mál þeirra er í rannsókn. Þá var gerð húsleit í nokkrum húsum í Finchley og Enfield, í norðurhluta Lundúna og í Stockwell, sem er í suðurhluta borgarinnar. Enginn íbúi húsanna var handtekinn í kjölfarið. Maður, sem var handtekinn í húsi í Stockwell í síðustu viku, hefur verið látinn laus án ákæru.

Sérfræðingar lögreglunnar vinna að rannsókn í báðum húsunum þar sem mennirnir fjórir voru handteknir í í nótt.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, var ánægður með árangur lögreglunnar og sagði handtökuna mikilvægt skref í rannsókn málsins.

Bandaríska fréttstofan ABC News leiddi líkur að því í fréttum sínum í dag að skipulag hryðjuverkanna í Lundúnum 7. júlí síðastliðinn hafi verið umfangsmeira en talið hefur verið hingað til. Greindi fréttastofan frá því að sprengja hefði fundist í bíl á flugvellinum í Luton, sem talið er að einn hinna hryðjuverkamannanna hafi tekið á leigu. Myndir sem ABC News birti sýndu 16 heimagerðar sprengjur. Voru nokkrar þeirra pakkaðar saman með líkt og pönnukökur. Þá hafði tugum stórra nagla verið hlaðið utan á nokkra pakka til að auka eyðileggingamátt þeirra.

SKY

Lögreglan í Bretlandi hefur staðfest að Yasin Hassan Omar hafi …
Lögreglan í Bretlandi hefur staðfest að Yasin Hassan Omar hafi verið handtekinn vegna gruns um að hafa reynt að sprengja sprengju nálægt Warren Street. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert