Hinn handtekni sagður vera Yasin Hassan Omar

Mynd sem lögregla dreifði af Yasin Hassan Omar, en hann …
Mynd sem lögregla dreifði af Yasin Hassan Omar, en hann er talinn hafa reynt að sprengja sprengju í neðanjarðarlest í Lundúnum í síðustu viku.

Samkvæmt upplýsingum breskra fjölmiðla er maðurinn sem var handtekinn í Birmingham á Englandi í nótt Yasin Hassan Omar, sem áður hafði verið nafngreindur sem einn tilræðismannanna í sprengjutilræðunum í Lundúnum í síðustu viku. Lögregla hefur hvorki viljað játa eða neita þessum fréttum.

Bresku sjónvarpsstöðvarnar BBC og Sky News sögðu báðar að Omar hefði verið handtekinn á heimili í Hay Mills í Birmingham og fluttur til Lundúna þar sem talið er að honum sé nú haldið í öryggisfangelsi. BBC hafði eftir ónafngreindum heimildarmönnum, að lögreglumenn hafi yfirbugað Omar með því að beita rafmagnsbyssu.

Þá sprengdu sérfræðingar lögreglu grunsamlegan pakka sem fannst þegar maðurinn var handtekinn í dag. Þetta kemur fram á fréttavef Sky News.

Yasin Hassan Omar er grunaður um að hafa skilið gallaða sprengju eftir á Warren Street lestarstöðinni í Lundúnum síðastliðinn fimmtudag. Þá hefur verið upplýst að hann hafi komið til Bretlands frá Sómalíu árið 1992, þá ellefu ára gamall, og fengið varanlegt landvistarleyfi þar sem barn flóttafólks.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, átti í dag viðræður við Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, og hvatti á blaðamannafundi á eftir til þess að reynt yrði að koma á framfæri hinni sönnu ásýnd íslamstrúar til að reyna að koma í veg fyrir að ungir múslimar yrðu öfgahópum að bráð. Blair sagði að samvinnan við Tyrkland, sem er múslimaríki, í baráttunni við hryðjuverkastarfsemi, hefði verið afar góð.

Blair átti einnig fund í dag með José Luis Rodríguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar. Á blaðamannafundi á eftir sagðist Blair fagna tillögu Spánverja um að myndað verði bandalag menningarheima milli vestrænna ríkja og múslimaríkja í baráttunni gegn hryðjuverkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert