Tveir af sprengjumönnunum handteknir

Vopnaður lögreglumaður í Lundúnum í dag.
Vopnaður lögreglumaður í Lundúnum í dag. AP

Nokkrir hafa verið handteknir í umfangsmiklum lögregluaðgerðum í vesturhluta Lundúna í dag. Fréttamaður Sky fréttastofunnar hefur eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar, að tveir af mönnunum fjórum, sem reyndu að sprengja sprengjur í lestum og strætisvagni 21. þessa mánaðar, hafi verið handteknir. Sá þriðji var handtekinn í Birmingham fyrr í vikunni.

Talið er að lögreglan hafi handtekið manninn, sem reyndi að sprengja sprengju í lest við Oval neðanjarðarlestarstöðina og manninn sem skildi eftir sprengju í strætisvagni.

Stórt svæði í kringum Dalgrano Gardens í North Kensington hefur verið girt af og rýmt. Sjónarvottar segjast hafa heyrt skot og mikla sprengingu um leið og lögreglumenn með gasgrímur ruddust inn í byggingu. Talið er að verið sé að leita að einum mannanna, sem reyndu að sprengja sprengjur í lestum og strætisvagni 21. þessa mánaðar.

BBC segir, að lögregla hafi ítrekað kallað til einhvers inni í íbúð í byggingu í White City hverfinu og bæði hann að koma út. Var hann nefndur Muhammad. Öðrum íbúum í byggingunni hefur einnig verið skipað að yfirgefa hana.

Þá hefur nokkrum götum í Notting Hill hverfinu í vesturhluta Lundúna verið lokað og þar standa einnig yfir aðgerðir. Sjónarvottar segja að einn maður, klæddur hvítum hlífðarsamfestingi, hafi verið leiddur á brott. Þá voru að minnsta kosti þrír aðrir menn handteknir þar.

Einnig var Liverpool Street neðanjarðarlestarstöðin í miðborg Lundúna rýmd nú eftir hádegið og segir BBC að tvær konur hafi verið handteknar þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert