Lögregla lokaði svæði í miðborg Lundúna

Mikill viðbúnaður lögreglu er í Lundúnum en óttast er að …
Mikill viðbúnaður lögreglu er í Lundúnum en óttast er að hryðjuverkamenn láti þar aftur til skarar skríða. Reuters

Lögregla lokaði svæði umhverfis Grays Inn Road í miðborg Lundúna eftir að reyk sást leggja frá strætisvagni en svo virtist sem smávægilegur eldur hafi kviknað í vagninum. Hópur sprengjusérfræðinga var einnig sendur á staðinn en fréttir bárust af grunsamlegum böggli í strætisvagninum, að sögn Sky sjónvarpsstöðvarinnar en þegar til kom fannst enginn pakki og var viðbúnaði aflétt nokkru síðar.

Fyrr í dag hófust neðanjarðarlestarferðir að nýju um svæðin þar sem sprengjur sprungu í lestarvögnum 7. júlí. Mikill viðbúnaður lögreglu og öryggisveita er í borginni.

Alls eru nú 17 manns í haldi lögreglu í borginni í tengslum við rannsókn á misheppnuðum sprengjuárásum 21. júlí. Þremur mönnum, sem höfðu verið handteknir, var sleppt í morgun. Þá er einn maður í haldi lögreglunnar í Róm, grunaður um aðild að árásunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert