Efnafræðingurinn hræðist heimför til Bretlands

Egypski efnafræðingurinn Magdi Mahmoud al-Nashar.
Egypski efnafræðingurinn Magdi Mahmoud al-Nashar. AP

Egypski efnafræðingurinn, sem lögreglan í Kaíró hafði í haldi vegna gruns um aðild að hryðjuverkunum í Lundúnum í síðasta mánuði og var leystur úr haldi í gær, hyggst fresta heimför sinni til Bretlands. Óttast hann að fólk viti ekki að hann hafi verið hreinsaður af grun um aðild að hryðjuverkunum.

Efnafræðingurinn, sem heitir Magdi al-Nashar og er 33 ára, lauk doktorsprófi í efnafræði frá háskólanum í Leeds. Grunur lék á að hann tengdist ódæðismönnunum en hann þekkti einn þeirra, Jermaine Lindsay. Hann var handtekinn í Kaíró um viku eftir hryðjuverkin í Lundúnum.

al-Nashar sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að hann hefði hitt Lindsay í mosku í október í Leeds á síðasta ári og hafi hann aðstoðað hann við að finna sér húsnæði. „Hann sagði mér að hann héti Gamal. Af pappírum hans að dæma sá ég hins vegar að hans rétta nafn væri Jermaine Lindsay,“ sagði al-Nashar og bætti við að Lindsay hefði hringt í sig í júní síðastliðnum. Þurfti hann á aðstoð að halda við að finna húsnæði en hann hugðist flytja ásamt fjölskyldu sinni frá Leeds til Lundúna.

Hann sagði jafnframt að sér stæði ekki á sama eftir að grunur féll á hann í tengslum við hryðjuverkin. „Fólk hefur séð mynd af mér á forsíðum dagblaða í tengslum við hryðjuverkin og veit ekki að ég er saklaus. Það er aldrei að vita hvað það tekur til bragðs þegar það sér mig úti á götu,“ sagði al-Nashar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert