Engin „bein tengsl“ fundin milli sprengjutilræða í Lundúnum í júlí

Flak strætisvagnsins sem sprengdur var í loft upp í Lundúnum …
Flak strætisvagnsins sem sprengdur var í loft upp í Lundúnum 7. júlí síðastliðinn. AP

Bresku lögreglunni hefur enn ekki tekist að tengja með beinum hætti hryðjuverkin í Lundúnum 7. júlí síðastliðinn og tilraunir til hryðjuverka sem áttu sér stað tveimur vikum síðar, 21. júlí. Þetta sagði Charles Clarke, innanríkisráðherra Bretlands, í dag.

„Að mínu mati kæmi það verulega á óvart ef þau (tilræðin) tengdust ekki með einhverjum hætti, (en) enn hefur ekki tekist að slík tengsl svo hægt sé að fullyrða um þetta,“ sagði ráðherrann í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC. 56 manns létust í árásunum 7. júlí, en þá gerðu fjórir menn, sem líklegt er talið að hafi verið sjálfsmorðssprengjumenn, sprengjuárásir í þremur neðanjarðarlestum og strætisvagni í Lundúnum. Tilraun til annarra sprengjutilræða tveimur vikum síðar mistókust, en sprengjurnar sem átti að nota í þeim sprungu ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert