Upplýsingar í skjölum stangast á við yfirlýsingar lögreglu um dauða Brasilíumanns

Lík Jean Charles de Menezes á gólfi lestarklefans þar sem …
Lík Jean Charles de Menezes á gólfi lestarklefans þar sem hann var skotinn til bana 22. júlí. ITV sjónvarpsstöðin birti myndina í gær. Reuters

Skjöl, sem lekið var til bresku sjónvarpsstöðvarinnar ITV, virðast stangast á við yfirlýsingar lögreglu um það hvernig það bar til að Brasilíumaðurinn Jean Charles de Menezes var skotinn til bana í Lundúnum í júlí. Opinber rannsókn stendur nú yfir á dauða Menezes en lögreglan taldi hann vera hryðjuverkamann á flótta.

Fram kemur á fréttavef BBC, að skjölin bendi til þess að lögreglu hafi tekist að yfirbuga Menezes áður en hann var skotinn átta skotum. Eftirlitsnefnd lögreglunnar, sem fjallar um málið, segist ekki vilja tjá sig um rannsóknina. Segir nefndin í yfirlýsingu, að hún viti ekki hvaðan skjölin hafi komið.

Skjölin sem um ræðir eru m.a. vitnaskýrslur. Benda þau til þess, að Menezes hafi ekki stokkið yfir öryggisgrindur við Stockwell neðanjarðarlestarstöðina eins og lögregla skýrði frá, og hafi ekki verið klæddur þykkum vatteruðum jakka sem gæti hafa skýlt sprengju.

Menezes var skotinn til bana að morgni 22. júlí en daginn áður var reynt að sprengja sprengjur í lestarvögnum og strætisvagni í borginni. Skjölin eru sögð benda til þess, að Menezes, sem starfaði sem rafvirki, hafi gengið inn í Stockwell-lestarstöðina, tekið með sér ókeypis dagblað, gengið gegnum miðaeftirlitshlið og tekið á sprett þegar hann sá lest renna inn á brautarstöðina. Hann hafi síðan verið að setjast niður í vagninum þegar lögreglan skaut hann.

Lögregla hefur sagt, að Menezes hafi hagað sér grunsamlega og stokkið yfir miðahliðið. Þá sagði lögregla einnig að Menezes hefði verið klæddur stórum og þykkum vetrarjakka en í skjölunum sem ITV birti, er haft eftir vitnum að hann hafi verið í gallajakka.

Þá segir einnig í skjölunum, að öryggisvörður hafi haldið Menezes föstum þegar vopnaðir lögreglumenn skutu hann til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert