Nýjum myndum dreift af sjálfsmorðsárásarmönnum í Bretlandi

Þeir Mohammed Sidique Khan, Shahzad Tanweer og Germaine Lindsay á …
Þeir Mohammed Sidique Khan, Shahzad Tanweer og Germaine Lindsay á brautarstöðinni í Luton í lok júní á leið til Lundúna. AP

Lögregla í Bretlandi hefur nú dreift myndum, sem teknar voru með öryggismyndavélum á járnbrautarstöðinni í Luton og á King's Cross lestarstöðinni í Lundúnum, en á myndunum sjást þrír menn, sem talið er að hafi staðið fyrir sjálfsmorðsárásum á neðanjarðarlestir og strætisvagn í Lundúnum 7. júlí sl. Myndirnar sem birtar voru í dag voru teknar 9 dögum fyrr og segir lögregla að svo virðist sem árásarmennirnir hafi þá verið að kanna staðhætti og undirbúa árásirnar.

Lögreglumenn rannsökuðu mikið magn af upptökum úr eftirlitsmyndavélum í tengslum við rannsóknina á hryðjuverkunum. Breska lögreglan Scotland Yard segir, að þessi æfingaferð, em mennirnir fóru í, sýni hve hryðjuverk séu vel skipulögð.

Lögregla fann myndirnar af mönnunum eftir að hafa fengið fengið vísbendingar um þeir hefðu farið í umrædda ferð.

Lögregla í Bretlandi hefur einnig upplýst, að tvær sprengjur hafi fundist í bíl sem mennirnir skildu eftir við lestarstöðina í Luton 7. júlí. Er talið hugsanlegt að fleiri menn hafi upphaflega ætlað að taka þátt í árásinni en hætt við.

Þá stendur nú yfir leit í uppfyllingu í Skelton Grange í Yorkshire að fleiri vísbendingum um málið. Að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC, er svæðið á stærð við 18 sundlaugar í fullri stærð.

56 manns létu lífið og yfir 700 særðust í árásunum í Lundúnum 7. júlí. í gærkvöldi sýndi arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera myndband, þar sem Ayman al-Zawahiri, nánasti samstarfsmaður Osama bin Ladens og næstráðandi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, lýsti yfir ábyrgð al-Qaeda samtakanna á hryðjuverkaárásunum í Lundúnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert