Maður sem framseldur var til Bretlands í dag ákærður fyrir morðtilraun

Hussein Osman ásamt lögreglumönnum á flugvellinum í Róm í dag.
Hussein Osman ásamt lögreglumönnum á flugvellinum í Róm í dag. Reuters

Lögregla í Bretlandi hefur ákært Hussain Osman fyrir morðtilraun og morðsamsæri í tengslum við misheppnaðar sprengjuárásir á neðanjarðarlestir og strætisvagn í Lundúnum 21. júlí í sumar. Osman var í dag framseldur til Bretlands frá Ítalíu og gert er ráð fyrir að hann komi fyrir dómara í Belmarsh fangelsi í Bretlandi á morgun.

Osman var sendur með leiguflugvél frá Róm til Bretlands í dag þar sem hann var handtekinn formlega og ákærður stuttu síðar. Osman var handtekinn í Róm viku eftir sprengjutilræðin. Þrír félagar hans, sem einnig reyndu að sprengja sprengjur í Lundúnum 21. júlí, voru handteknir í Bretlandi og hafa allir verið ákærðir. Þeir sitja í gæsluvarðhaldi í öryggisfangelsi í Lundúnum.

Sprengjuárásirnar misheppnuðu voru gerðar réttum hálfum mánuði eftir að fjórir menn gerðu sjálfsmorðsárásir á lestarvagna og strætisvagn í borginni. Þar létust 52 farþegar og yfir 700 særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert