Nýr strætisvagn vígður í Lundúnum

Strætisvagninn sem sprengdur var í Tavistock Square í London 7. …
Strætisvagninn sem sprengdur var í Tavistock Square í London 7. júlí. AP

Ken Livingstone, borgastjóri í Lundúnum vígði nýjan strætisvagn borgarinnar í dag. Strætisvagninn, sem hlaut heitið Andi Lundúna (e. Spirit of London) er númer 30 og mun hann taka við af strætisvagninum sem hryðjuverkamaður sprengdi við Tavistock Squire í byrjun júlí síðastliðnum með þeim afleiðingum að 30 létust. Livingstone sagði strætisvagninn vera virðingarvott til þeirra sem létust.

Hann bætti við, að borgarbúar hefðu staðið saman gegn hryðjuverkum og minntist þeirra sem slösuðust, starfsmanna á samgönguleiðum borgarinnar sem og björgunarliða.

Strætisvagninn, sem er með farþegarými á tveimur hæðum líkt og aðrir strætisvagnar á götum borgarinnar, er fyrsti vagninn af nýrri kynslóð strætisvagna sem yfirvöld í Lundúnum hyggjast taka í notkun á næstunni. Nýi strætisvagninn, sem hannaður er í Bretlandi, mun verða tekinn í notkun síðar í þessum mánuði.

Á sama tíma og strætisvagninin var vígður í dag útnefndi vikuritið Time Jeff Porter, lestarstjóra, sem eina af hetjum ársins, en hann kom farþegum til hjálpar þegar sprengja sprakk á neðanlestarstöðinni við Edgware Road. Þrátt fyrir að framrúða lestarinnar, sem hann stjórnaði, hafi splundrast í sprengingunni, þá stökk hann út á lestarteinana og hljóp nokkurn spöl til lestarstöðvarinnar til að fá hjálp. Þegar hann sneri aftur til róaði hann um 1.000 farþega lestarinnar og kom þeim í öruggt skjól.

BBC

Flak strætisvagnsins.
Flak strætisvagnsins. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert