Breska lögreglan ræddi baráttuna gegn hryðjuverkamönnum

Ian Blair við Downingstræti 10.
Ian Blair við Downingstræti 10. Reuters.

Lögreglan í Lundúnum varði í dag ákvörðun sína að nota vopn í baráttu sinni gegn hugsanlegum sjálfsmorðssprengjumönnum en lögreglan hefur sætt harðri gagnrýni eftir að óeinkennisklæddir lögreglumenn skutu til bana saklausan mann á Stockwell neðanjarðarlestarstöðinni í júlí síðastliðnum.

Sir Ian Blair, lögreglustjóri í Lundúnum, hefur beðist afsökunar á því að Jean Charles de Menezes, 27 ára rafvirki frá Brasilíu, féll fyrir hendi lögreglumannanna í júlí. Hann lagði hins vegar áherslu á, að lögreglan verði að fá að fella hvern þann sem sé í þann mund að sprengja sprengju.

Blair sagði fyrir eftirlitsnefnd lögreglunnar í dag að ef lögreglumenn hefðu tekið eftir manninum sem sprengdi sjálfan sig upp í strætisvagni í Lundúnum 7. júlí síðastliðnum þá hefðu þeir skotið hann til bana til að vernda almenning.

„Við vitum nú að fjórði sprengjumaðurinn í júlí gekk um götur Lundúna í klukkustund með bakpoka fullan af sprengiefni,“ sagði Blair. „Ef við hefðum borið kennsl á hann hefðum við skotið hann.“

Steve House, aðstoðarlögreglustjóri, sagði tilgang þess að skjóta hugsanlega hryðjuverkamenn vera að gera þá óvíga en ekki að drepa. Sagðist aðstoðarlögreglustjórinn ekki samþykkja þær aðgerðir sem feli í sér að drepa hugsanlega hryðjuverkamenn. „Á vettvangi hryðjuverka verða ákvarðanir að vera ótvíræðar enda eiga þær að koma í veg fyrir að almenningi sé hætta búin. Ef við getum hindrað einstakling í að fremja hryðjuverk án þess að drepa hann þá eigum við að gera það,“ sagði House sem vinnur að endurskipulagningu á aðgerðum lögreglunnar gegn hryðjuverkamönnum. „Ættum við ekki að reyna að ná hryðjuverkamönnunum á lífi svo við getum spurt þá spjörunum úr og látið þá veita okkur upplýsingar?“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert