Kröfur um að minnisblað um samræður Bush og Blair um Al-Jazeera verði birt

Blair og Bush í Hvíta húsinu.
Blair og Bush í Hvíta húsinu. AP

Komið hafa fram kröfur í Bretlandi um að forsætisráðuneytið þar í landi birti minnisblað um samræður Tonys Blairs, forsætisráðherra, og George W. Bush, Bandaríkjaforseta, sem áttu sér stað í Hvíta húsinu í apríl á síðasta ári. Breska blaðið Daily Mirror segist í dag hafa upplýsingar um að í þessum samræðum hafi Blair sannfært Bush um að ekki væri ráðlegt að gera sprengjuárásir á höfuðstöðvar sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera í Katar.

Blaðið hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum, að á minnisblaði um samræðurnar, sem merkt sé trúnaðarmál, segi Bush að hann sé að íhuga að gefa fyrirmæli um að gera sprengjuárás á höfuðstöðvar Al-Jazeera í Doha, höfuðborg Katar. Blair reyni hins vegar að sannfæra Bush um að það sé ekki ráðlagt enda sé Katar eitt helsta bandalagsríki Vesturveldanna við Persaflóa.

Al-Jazeera hafði vakið reiði bandarískra stjórnvalda með því að birta myndbönd frá Osama bin Laden, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, og frá leiðtogum uppreisnarinnar í Írak.

Sky sjónvarpsstöðin segir að talsmaður breska forsætisráðuneytisins hafi í morgun neitað að ræða málið. En Peter Kilfoyle, fyrrum varnarmálaráðherra og einn helsti andstæðingur Íraksstríðsins innan breska Verkamannaflokksins, segir að forsætisráðuneytið eigi að birta minnisblaðið opinberlega.

„Ég tel að Downingstræti eigi að birta þetta minnisblað til að tryggja gegnsæi, í ljósi þess hve mikið af því hefur nú þegar birst opinberlega. Ég held að þeir verði að útskýra nákvæmlega hvað þarna fór fram. Sé það tilfellið, að Bush forseti vildi gera sprengjuárás á Al-Jazeera í vinveittu ríki, þá segir það sína sögu og vekur spurningar um síðari árásir á fjölmiðla, sem ekki fylgdu reglum bandalagshersins," hefur Sky eftir Kilfoyle.

mbl.is