Stjörnuveitingastað í Ósló lokað vegna rottuskíts

Veitingastaðurinn Le Canard í Ósló þykir einn sá fínasti í borginni og hefur 1 stjörnu í Michelin bæklingnum. Það var því mikið áfall fyrir eigendur staðarins þegar heilbrigðiseftirlit borgarinnar lokaði staðnum í gærkvöldi eftir skyndieftirlit, en rottuskítur fannst á víð og dreif í kjallara staðarins.

Kåre Ivar Wang, eigandi staðarins, staðfesti við blaðið VG að rottuskítur hefði fundist á starfsmannasalerni í kjallaranum, við fatahengi og í gangi. „Þetta er auðvitað hræðilegt," segir hann.

Matargestir, sem voru á staðnum þegar honum var lokað í gærkvöldi, var boðið að halda máltíðinni áfram á öðrum veitingastöðum. Tekin verður ákvörðun um framhald málsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert