Páfi hvetur mannkynið til andlegrar vakningar

Páfi flytur ávarp sitt á Péturstorginu í dag.
Páfi flytur ávarp sitt á Péturstorginu í dag. Reuters

Í fyrsta jólaávarpi sínu hvatti Benedikt 16. páfi kaþólska menn og mannkynið allt til andlegrar vakningar. Hann ávarpaði þúsundir manna á Péturstorginu í dag og sagði m.a. að hætta væri á að jarðarbúar á 21. öld yrðu „fórnarlömb vitsmunalegra afreka sinna“. Harmaði páfi hryðjuverkaógn og fátækt í heiminum og sagði umhverfiseyðingu vera nýja, ógnvekjandi hættu.

Benedikt fylgdi í fótspor fyrirrennara síns, Jóhannesar Páls, og óskaði áheyrendum gleðilegra jóla á yfir 30 tungumálum. Alls 111 sjónvarpsstöðvar víða um heim sýndu ávarp páfa, þ.á m. margar í beinni útsendingu.

Í upphafi ávarps síns fjallaði páfi um þær „gífurlegu“ framfarir er orðið hafi á undanförnum öldum í tækni og vísindum. „En nú á þessari tækniöld eiga menn og konur á hættu að verða fórnarlömb sinna eigin vitsmunalegu og tæknilegu afreka og enda í andlegu eyðilandi með tómt hjarta,“ sagði páfi.

Til að forðast að lenda í slíku tómi, sagði hann, yrðu trúaðir að opna hjarta sitt og huga fyrir fæðingu frelsarans. Án þess ljóss sem Kristur bæri með sér væri ljós skynseminnar ekki nóg til að vísa mannkyninu og veröldinni veginn.

mbl.is