Dæmd í fangelsi fyrir að setja afhöggvinn fingur í chili-rétt

Par í Nevada í Bandaríkjunum, sem lagði á ráðin um að setja afhöggvinn fingur af manni út í skál með chili-rétti á Wendys-veitingastað til að geta krafist skaðabóta, var í dag dæmt í margra ára fangelsi. Konan, Anna Ayala, hlaut níu ára dóm, og maðurinn, Jaime Plascencia, sem lagði til fingurinn, hlaut tólf ára dóm.

Þau játuðu í september að hafa sett fingurinn í skálina á Wendy's veitingastað í San Jose í mars. Strax lék grunur á að þau hefðu eitthvað óhreint í pokahorninu, ekki síst vegna þess að fingurinn var ósoðinn. Fréttin um fingurfundinn fór sem eldur í sinu um heimsbyggðina, og Wendy's kveðst hafa tapað milljónum dollara vegna málsins.

Eftir umfangsmikla rannsókn þótti sýnt, að fingurinn væri af vinnufélaga Placencias, en sá hafði misst hann í vinnuslysi á steypuverkstæðinu sem þeir unnu á. Plascencia keypti fingurinn af vinnufélaganum á hundrað dollara og sagði honum hvað þau Ayala ætluðu að gera. Vinnufélaginn sagði þau síðar hafa boðið sér 250.000 dollara fyrir að þegja um málið.

mbl.is