Sjö negldir á krossa við hefðbundna athöfn á Filippseyjum

Sjö Filippseyingar tóku í dag þátt í árlegri krossfestingarathöfn í bænum San Fernando og létu negla sig á krossa til að minnast pínu Krists. Filippseyingarnir voru krossfestir í nokkrar mínútur og eftir þolraunina leitaði einn þeirra til læknis.

Breti sem ætlaði að taka þátt í athöfninni, sem jafnan fer fram í San Fernando á föstudaginn langa, guggnaði á síðustu stundu og um tíu þúsund manns sem komu til að fylgjast með athöfninni púuðu á hann fyrir vikið.

Þessir sjö „Kristos“ gengu upp á hæð í brennandi sólskini berandi stóra viðarkrossa. Þegar upp var komið voru þeir negldir á krossana og þeir reistir upp í fáeinar mínútur. Upp á hæðin fylgdi þeim hópur manna sem hýddu sjálfa sig til blóðs með bambussvipum.

Bretinn Dominic Diamond gekk með kross upp á hæðina, en þegar þar kom að negla átti hann fastan kraup hann á kné og baðst fyrir í tíu mínútur. Svo hvarf hann af vettvangi í sjúkrabíl undir háðsglósum viðstaddra.

Conrado Diamse, íbúi í San Fernando, sem tekið hefur þátt í þessari athöfn, sagði að Diamond hefði ekki verið alvara. „Hann vildi bara vekja á sér athygli.“ Diamond, sem er dálkahöfundur frá London og fyrrverandi sjónvarpskynnir, veitti ekki viðtöl og bæjarstarfsmenn sögðu hann einungis ætla að tala við breska sjónvarpsstöð sem hefði einkarétt á frásögn hans.

mbl.is