Páfastjórn athugar hvort leyfa eigi kaþólikkum að nota smokka

Páfi blessar mannfjöldann frammi fyrir Péturskirkjunni í Róm þann 16. …
Páfi blessar mannfjöldann frammi fyrir Péturskirkjunni í Róm þann 16. apríl s.l. Reuters

Páfastjórn er nú að athuga hvort hún eigi að leyfa kaþólikkum að nota smokka til þess að stemma stigu við útbreiðslu alnæmis og einnig hvort leyfa eigi rannsóknir á stofnfrumum. Ekki er þó vitað hvenær hún mun tjá sig um málið. Javier Lozano Barragan kardínáli, sem fer fyrir þeirri skrifstofu páfagarðs sem hefur með höndum heilbrigðismál, var um helgina sagður vera að vinna að gerð skjals um málið sem opinberað yrði innan skamms. Hann leiðrétti það í dag og sagði skrifstofu hans einungis vera að kynna sér málið að ósk páfa.

Barragan segir „djúpstæða vísindalega, tæknilega og siðferðislega athugun“ nú fara fram innan páfagarðs á því hvernig hjón eigi að bera sig að ef annað þeirra reynist HIV-smitað. Niðurstöður þeirrar athugunar verði kynntar Benedikt XVI páfa og hann muni af „visku sinni og með aðstoð heilags anda“ taka ákvörðun og tilkynna hana svo páfastjórn.

Engin skýr stefna er innan páfagarðs hvað varðar notkun smokka eða gagnvart alnæmi en kaþólska kirkjan er þó andvíg notkun smokka ef litið er til andstöðu hennar við getnaðarvarnir. Hún hvetur kaþólikka til skírlífis þar sem það sé besta leiðin til að hamla útbreiðslu HIV-veirunnar. CNN fréttavefurinn greinir frá þessu.

mbl.is