Breska lögreglan, Scotland Yard, hefur ákveðið að hefja ekki rannsókn á því hvort John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, og einkaritari hans hafi brotið lög með því að eiga ástarfundi í vinnutímanum í opinberri skrifstofu Prescotts.
John Yates, aðstoðarlögreglustjóri, segir í yfirlýsingu, að það væri ekki viðeigandi nýting á starfskröftum lögreglu að rannsaka þetta mál.
„Það er talið, að hugsanlegar afleiðingar meints háttalags, jafnvel þótt sannað væri, séu ekki það alvarlegar að það myndi leiða til saksóknar," segir í yfirlýsingunni.
Fyrrum lögreglumaður í Skotlandi sendi kærubréf til Scotland Yard eftir að Tracey Temple, fyrrum einkaritari Prescotts, kom fram í fjölmiðlum og lýsti ástarfundum þeirra á skrifstofu Prescotts í Whitehall. Vísaði lögreglumaðurinn m.a. í mál gegn lögreglumanni í Manchester, sem þurfti að afplána 200 stunda samfélagsþjónustu eftir að hann varð uppvís að því að hafa haft samfarir við konu þrívegis þegar hann átti að vera í vinnunni.