Bannað að vera með djarfar auglýsingar á meðan páfinn er í heimsókn

Íbúar í Varsjá fögnuðu mjög komu páfa í dag.
Íbúar í Varsjá fögnuðu mjög komu páfa í dag. Reuters

Kynþokkafullar auglýsingar voru faldar og áfengisbann tók gildi í dag á þeim svæðum þar sem Benedikt páfi mun heimsækja í fjögurra daga heimsókn sinni til Póllands, en heimsóknin hófst í dag.

Áberandi auglýsing, þar sem verið var að auglýsa krem gegn appelsínuhúð, var falið eftir að hópur íhaldssamra einstaklinga kvartaði undan því að það væri móðgandi að það sæist í ber læri og beran afturenda konunnar á veggspjaldinu. Þess má geta að meirihluti Pólverja eru rómversk-kaþólskrar trúar.

Þá héldu slúðurblöðin sig frá því að birta myndir af berbrjósta fyrirsætum í blöðum sínum í dag, og á sama tíma voru öldurhús í Varsjá annaðhvort lokuð eða þá að þau seldu aðeins léttbjór.

„Við viðurkennum þessa beiðni og virðum tilfinningar hinna trúuðu,“ sagði Pierra Plassard, yfirmaður L'Oreal í Póllandi, er hann útskýrði hvers vegna ákveðið hafði verið að hylja veggspjaldið.

„Á sama tíma viljum við leggja áherslu á það að þessi auglýsing brýtur ekki í bága við það sem þykir sjálfsagt og eðlilegt í samfélaginu,“ bætti hann við.

Beata Zmijewska, sem starfar hjá fréttamiðstöð ríkisins, segir að áfengisbannið snúist um það að landsmenn taki þátt af heilum hug í pílagrímsför Benedikts páfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert