Alan García sigraði í forsetakosningum í Perú

Alan García sigraði í forsetakosningum sem fóru fram í Perú í gær. Þegar búið var að telja um 78% atkvæða í hafði Garcia fengið 55,5% en Ollanta Humala, fyrrum hershöfðingi, 44,5%, að sögn formanns yfirkjörstjórnar landsins. Humala hafði heitið því að fylgja fordæmi þeirra Hugo Chavez, forseta Venesúela og Evo Morales, forseta Bólivíu, og hækka skatta á erlend fyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir landsins.

García, sem er 57 ára, var forseti Perú á árunum 1985 til 1990 en hrökklaðist þá frá völdum og skildi eftir sig rjúkandi efnahagsleg rúst: verðbólga komst í 3000 prósent og matarskortur varð í landinu. Þá logaði allt í átökum og skæruliðar stóðu fyrir ofbeldisverkum. García flúði land til Kólumbíu og Frakklands og eftirmaður hans, Alberto Fujimori, hótaði að láta handtaka hann fyrir spillingu.

Garcia sagði, eftir að ljóst varð að hann hefði sigrað í gær, að sigur hans sýndi að Perúbúar höfnuðu hinu herskáa kerfi, sem Hugo Chavez væri að reyna að koma á í Suður-Ameríku.

Humala hafði heitið því að ráðast gegn spillingu í stjórnkerfinu og jafna kjörin í landinu með því að rétta hlut indíána og frumbyggja sem eru í meirihluta í Perú. Hann var hins vegar of herskár í tali fyrir margra smekk og García naut stuðnings í norðurhluta landsins og í höfuðborginni Lima. Stuðningsmenn Humalas voru hins vegar flestir í suðurhluta Andesfjalla þar sem indíánar eru fjölmennir.

Kosningabaráttan var hörð og sumstaðar brutust út götubardagar milli stuðningsmanna frambjóðandanna. Chavez, forseti Venesúela, blandaði sér í baráttuna með því að kalla García þorpara. Á kosningafundi í Cuzco var eggi kastað í andlit Garcías og hlaut hann sár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert