Bandaríkjamenn segja fregnir um dauða bin Ladens með öllu óstaðfestar

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði í dag að fregnir fransks dagblaðs um að sádí-arabískir leyniþjónustumenn séu „sannfærðir um að Osama bin Laden sé nú látinn“ hafi ekki fengist staðfestar. Í sama streng tóku stjórnvöld í Pakistan, en bin Laden á að hafa látist í síðasta mánuði úr taugaveiki einhverstaðar á landamærum Pakistans og Afganistans.

Franska blaðið l'Est Republicain birti í dag frétt um að franska leyniþjónustan, DGSE, hafi fengið þær upplýsingar frá sádí-arabísku leyniþjónustunni að fullvíst væri talið að bin Laden væri allur. Birti blaðið útdrátt úr minnisblaði frá DGSE þar sem þetta kemur fram. „Það kemur mér talsvert á óvart að trúnaðarskjal frá DGSE skuli birt opinberlega,“ sagði Jacques Chirac Frakklandsforseti á blaðamannafundi í dag.

Minnisblaðið er dagsett 21. september, og á því segir að sádí-arabískir leyniþjónustumenn séu „sannfærðir um að Osama bin Laden sé nú látinn“. Upplýsingar sem Sádí-Arabar hafi aflað frá heimildamanni er þeir telji áreiðanlegar bendi til að bin Laden „kunni að hafa látist úr alvarlegri taugaveiki sem hann hafi fengið í kjölfar þess að neðri hluti líkama hans lamaðist að hluta í ágúst. Landfræðileg einangrun hans, eftir langan og sífelldan flótta, er talin hafa komið í veg fyrir að hann fengi læknisaðstoð og 4. september fékk sádí-arabíska leyniþjónustan bráðabirgðaupplýsingar um lát hans“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert