Sádí-arabísk stjórnvöld telja bin Laden látinn

Reuters

Franskt dagblað, l'Est Republicain, birtir í dag frétt þess efnis að franska leyniþjónustan hafi upplýsingar um að stjórnvöld í Sádí-Arabíu telji að Osama bin Laden hafi látist úr taugaveiki í Pakistan fyrr í mánuðinum.

Franska varnarmálaráðuneytið gaf út tilkynningu í dag þar sem segir að ekki sé hægt að staðfesta frétt blaðsins, og að varnarmálaráðherrann hafi fyrirskipað rannsókn á því hver hafi lekið upplýsingum til blaðsins.

Franska leyniþjónustan hefur einnig neitað að staðfesta fréttina, og ekkert hefur heyrst um málið frá sádí-arabískum yfirvöldum. En evrópskir og pakistanskir embættismenn sem hafa með höndum þann starfa að reyna að fylgjast með ferðum bin Ladens tjáðu fréttastofunni AFP að ekki væri hægt að telja frétt blaðsins áreiðanlega.

Bin Laden hefur oft áður verið talinn af, en hefur síðan komið fram á myndbandi. Talið hefur verið að hann sé í felum á landamærum Pakistans og Afganistans.

mbl.is