Þýskur ráðherra segir öfgasinnaða múslíma „grípa hvert tækifæri til að brjálast“

Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Þýskalands, gagnrýndi í dag það sem hann sagði vera tilhneigingu sumra öfgasinnaðra múslíma til að „brjálast“ af minnsta tilefni. Schäuble tók málstað páfa í deilunni sem reis í kjölfar ræðu hans í háskólanum í Regensburg í Þýskalandi fyrir hálfum mánuði.

Schäuble er í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. Á fundi með fréttamönnum í morgun sagði hann: „Ég samþykki það aldrei að páfinn eða einhver annar megi ekki halda svona ræðu. Varði Schäuble einnig rétt danskra dagblaða til að birta skopmyndir af Múhameð spámanni.

Þá hélt Schäuble því fram, að ýmsir gangi of langt í viðleitni til að sýna múslímum tillitssemi. Nefndi hann sem dæmi nýlega ákvörðun Þýsku óperunnar að hætta við uppfærslu á Idomeneo eftir Mozart eftir að öryggisfulltrúar vöruðu við því að sýningin gæti skapað hættu þar eð í henni væri fjallað um íslam og önnur trúarbrögð.

Schäuble viðurkenndi að það væri ekki auðvelt að takast á við þær aðstæður sem skapist þegar sumir múslímar bregðist á öfgakenndan hátt við því sem hann teldi vera minniháttar móðganir. „Þetta er erfitt varðandi suma múslíma. Þeir hafa tilhneigingu til að nota hvert tækifæri til að brjálast. Það þykir mér óviðunandi.“

mbl.is