Lögreglan rannsakar nú hver sé ástæðan að baki morðunum í Pennsylvaníu

Charles Carl Roberts skildi eftir sjálfsvígsbréf handa börnunum sínum þremur.
Charles Carl Roberts skildi eftir sjálfsvígsbréf handa börnunum sínum þremur. Reuters

Lögreglan í Pennsylvaníu rannsakar nú hver ástæðan sé að baki því að vopnaður maður varð fimm stúlkum að bana í litlum skóla sem þjónar börnum Amish-fólks, sem er friðsamur hópur kristinna manna. Lögreglan segir að morðinginn, Charles Carl Roberts, hafi verið þungvopnaður og útbúinn til langrar veru í skólanum.

Skömmu eftir að maðurinn fór inn í skólann neyddi hann alla drengi og fjórar konur að yfirgefa skólastofuna. Í framhaldinu batt hann stúlkurnar sem eftir voru og hóf að skjóta þær. Hann skaut svo sjálfan sig í kjölfarið.

Fimm stúlkur særðust. Ástand einnar af þeim er alvarlegt og þá er önnur í lífshættu.

Bandaríkjastjórn segist ætla að halda ráðstefnu þar sem umfjöllunarefnið verður árásir byssumanna í skólum, en árásin í gær var þriðja mannskæða skotárásin í skóla sem átti sér stað í Bandaríkjunum á innan við viku.

Ríkislögreglustjórinn í Pennsylvaníu segir að svo virðist sem að morðinginn hafi ætlað að taka Amish-fólk sérstaklega fyrir. Svo virðist sem að hann hafi valið skólann sökum þess að hann hafi verið ákveðinn í því að myrða ungar stúlkur vegna atburðar sem átti sér stað fyrir 20 árum.

Lögreglan rannsakar nú sjálfsvígsbréf sem maðurinn, sem var 32ja ára, skyldi eftir handa börnunum sínum þremur.

Lögreglan rannsakar einnig hvort dauði ungrar dóttur hans fyrir þremur árum hafi átt þátt í því að morðinginn, sem starfaði sem mjólkurflutningabílstjóri og var ekki hluti af Amish-fólkinu, hafi framið voðaverkin.

mbl.is