Boðið til ,,jarðarfarar" náttúru Íslands og Trínidad og Tóbagó

Hálslón þann 18. okt. sl.
Hálslón þann 18. okt. sl. Morgunblaðið/ RAX

Umhverfisverndarsamtökin SavingIceland.org og NoSmelterTnt hafa sent frá sér tilkynningu um ,,jarðarför" íslenskrar náttúru og náttúru Trínidad og Tóbagó, leikræna athöfn sem fara á fram í Lundúnum á morgun. Í tilkynningu segir að meðlimir samtaka og þegnar Bretlands, Íslands og Trínidad og Tóbagó muni mæta til jarðarfararinnar en athöfnin hefst kl. 13 á Sloane torginu í Lundúnum.

Athöfnin verður með því móti að gengið verður með líkkistu í gegnum miðborg Lundúna til þess að ,,syrgja þær óbyggðir sem Alcoa hafi lagt í rúst á Íslandi og Trínidad og Tóbagó." Söngvar verði sungnir og ræður fluttar af fulltrúum frá þessum löndum. Þá verða mótmæli á sama tíma á Trínidad og Tóbagó. Mótmælabúðir verði settar upp við háskóla á Trínidad og mótmælendur í Lundúnum verði í beinu sambandi við þá á meðan þetta fer fram.

Í tilkynningunni segir að hleypt hafi verið vatni þann 28. september s.l. ,,að stærstu ósnortnu víðáttu Evrópu, Kárahnjúkum". Kárahnjúkastífla sé aðeins ,,byrjunin á áætlun sem miði að því að leggja það sem eftir er af íslenskum öræfum í rúst" fyrir fleiri álver. Á Trínidad eigi að reisa álbræðslu sem gangi fyrir jarðgasi og verði regnskógur felldur til að koma henni fyrir og 200 manns neyddir til að flytjast búferlum.

Saving Iceland

NoSmelterTnT

mbl.is