Boðið til ,,jarðarfarar" náttúru Íslands og Trínidad og Tóbagó

Hálslón þann 18. okt. sl.
Hálslón þann 18. okt. sl. Morgunblaðið/ RAX

Umhverfisverndarsamtökin SavingIceland.org og NoSmelterTnt hafa sent frá sér tilkynningu um ,,jarðarför" íslenskrar náttúru og náttúru Trínidad og Tóbagó, leikræna athöfn sem fara á fram í Lundúnum á morgun. Í tilkynningu segir að meðlimir samtaka og þegnar Bretlands, Íslands og Trínidad og Tóbagó muni mæta til jarðarfararinnar en athöfnin hefst kl. 13 á Sloane torginu í Lundúnum.

Athöfnin verður með því móti að gengið verður með líkkistu í gegnum miðborg Lundúna til þess að ,,syrgja þær óbyggðir sem Alcoa hafi lagt í rúst á Íslandi og Trínidad og Tóbagó." Söngvar verði sungnir og ræður fluttar af fulltrúum frá þessum löndum. Þá verða mótmæli á sama tíma á Trínidad og Tóbagó. Mótmælabúðir verði settar upp við háskóla á Trínidad og mótmælendur í Lundúnum verði í beinu sambandi við þá á meðan þetta fer fram.

Í tilkynningunni segir að hleypt hafi verið vatni þann 28. september s.l. ,,að stærstu ósnortnu víðáttu Evrópu, Kárahnjúkum". Kárahnjúkastífla sé aðeins ,,byrjunin á áætlun sem miði að því að leggja það sem eftir er af íslenskum öræfum í rúst" fyrir fleiri álver. Á Trínidad eigi að reisa álbræðslu sem gangi fyrir jarðgasi og verði regnskógur felldur til að koma henni fyrir og 200 manns neyddir til að flytjast búferlum.

Saving Iceland

NoSmelterTnT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert