Ortega næsti forseti Níkaragva

Skæruliðaforinginn fyrrverandi, Daniel Ortega, verður næsti forseti Níkaragva. Úrslit lágu ljós fyrir í morgun þar sem Ortega hlaut 38% atkvæða, með 9% forskot á andstæðing sinn Eduardo Montealegre. Ortega hófst til valda í byltingu sandinista árið 1979. Fyrir 16 árum beið hann ósigur í forsetakosningum fyrir Violeta Chamarro. Ortega átti fund með Montealegre í dag og hétu þeir því að vinna saman gegn fátækt í landinu og efla atvinuulífið og fjölga störfum.

,,Við þökkum Guði fyrir þetta tækifæri sem okkur gefst til að byggja upp Níkaragva í sátt og samlyndi með því að ræða saman og ná samhljóða áliti, þrátt fyrir ágreining," sagði Ortega. Ortega er vinstrisinnaður og fjölgar nú enn ríkjum Mið-Ameríku þar sem vinstrisinnaðir forsetar sitja við völd sem andsnúnir eru Bandaríkjastjórn. Ortega er mikill vinur Hugo Chavez, forseta Venesúela.

,,Rómanska Ameríka verður aldrei aftur bakgarður hins Norður-Ameríska heimsveldis," mun Chavez hafa sagt eftir að tala við Ortega og skipað ,,kananum" að fara heim til sín. ,,Þetta er okkar land, þetta er okkar Ameríka!" sagði Chavez. Þúsundir fylgismanna hinna vinstrisinnuðu sandínista fögnuðu sigri Ortega á götum úti í Níkaragva í dag.

Níkaragva er næstfátækasta land Ameríku, á eftir Haítí. Sandínistar komust til valda í Níkaragva árið 1979 er einræðisherranum Anastasio Somoza var steypt af stóli. Ortega var þá ungur byltingarleiðtogi og kunnu stjórnvöld í Bandaríkjunum lítt að meta umskiptin í landinu, að marxistar hefðu tekið völd. Ákváðu Bandaríkjamenn að styðja Contra skæruliðana og grafa undan sandínistum. Borgarastríð braust út sem landið hefur enn ekki jafnað sig eftir. Reuters segir frá því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert