Lífskjör í fátækustu löndunum versna

Vannært barn í Níger
Vannært barn í Níger Reuters

Vaxandi munur er á lífskjörum fólks í ríkustu og fátækustu löndum heims samkvæmt niðurstöðu árlegrar rannsóknar Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) en í rannsókninni er m.a. tekið tillit til lífslíka, lestrarkunnáttu, menntunar og lífsgæða samkvæmt HDI staðlinum. Þetta kemur fram á sænska fréttavefnum The Local.

Claes Johansson, talsmaður UNDP, segir skipan efstu sæta listans ekki koma á óvart en þar eru Noregur og Ísland í efstu sætum. Hann segir rannsóknina þó sýna að mikil þörf sé að huga að málefnum þeirra fimm ríkja sem séu neðst á listanum en í fimm neðstu sætum hans eru Gínea-Bissá, Búrkína-Fasó, Malí, Sierra Leon og Níger. Þá segir hann að bilið á milli ríkra og fátækra þjóða sé stöðugt að breikka og að mestum áhyggjum valdi að lífskjör fólks í Afríku sunnan Sahara hafi ekki batnað neitt á síðustu fimmtán árum. Þetta megi m.a. rekja til skorts á hreinu vatni og útbreiðslu HIV veirunnar og alnæmis.

Johansson bendur á að íbúar Noregs séu að jafnaði 40 sinnum ríkari en íbúar Níger og að þeir geti gert ráð fyrir að eiga helmingi lengri ævi. Lífslíkur fólks í álfunni eru nú 46 ár sem er lægri en fyrir þrjátíu árum. Lægstar eru lífslíkurnar hins vegar í Svasílandi þar sem gera má ráð fyrir að nýfætt barn lifi í 31 ár.

mbl.is