Fyrrum rússneskur njósnari lést af völdum eitrunar

Alexander Litvinenko á sjúkrabeði.
Alexander Litvinenko á sjúkrabeði. Reuters

Alexander Litvinenko, sem legið á sjúkrahúsi undanfarnar vikur að því er virðist vegna eitrunar, lést í kvöld. Litvinenko, sem var 43 ára og fyrrum rússneskur njósnari, veiktist fyrir þremur vikum skömmu eftir að hann átti fundi með tveimur rússneskum heimildarmönnum og hafa komið fram ásakanir um að honum hafi verið byrlað eitur og að rússnesk stjórnvöld tengist málinu með einhverjum hætti. Stjórnvöld í Kreml hafa vísað þeim ásökunum alfarið á bug.

Læknar útilokuðu í dag, að þungmálmur á borð við þallín, eins og fyrst var talið, hafi valdið eitruninni og ólíklegt að geislavirk efni væru orsökin, eins og síðar var haldið.

Litvinenko hafði gagnrýnt Vladímír Pútín, forseta Rússlands, og skrifað tvær bækur þar sem hann sakaði leyniþjónustuna um glæpastarfsemi og hryðjuverk. Hann flúði til Bretlands fyrir sex árum. Hann sagði í síðustu viku að hann teldi að sér hafi verið byrlað eitur 1. nóvember er hann snæddi á sushi-bar á Piccadilly með Ítala sem kvaðst hafa upplýsingar um morð á rússneskri blaðakonu í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert