Hátt á annað hundrað féll í sprengjuárásum í Bagdad

Götumynd frá Sadrborg í dag.
Götumynd frá Sadrborg í dag. Reuters

Í það minnsta 143 féllu í fjölda bílsprenginga og sprengjuárása í Bagdad í dag. Þá var gerð umfangsmikil árás á heilbrigðisráðuneytið í borginni. Sprengingarnar urðu um svipað leyti en á ólíkum stöðum í hverfinu Sadrborg, og varð gríðarleg eyðilegging á götum og líkamsleifar fórnarlamba lágu út um allt. Þetta eru mannskæðustu sprengjutilræði mánaðarins í borginni.

Þá særðust yfir 220 í árásunum í hverfinu í dag. Fimm manns særðust í árásinni á heilbrigðisráðuneytið sem er um 5 km frá Sadrborg. 30 uppreisnarmenn beittu þar sprengikúlum, handsprengjum og vélbyssum á ráðuneytið. Aðstoðarheilbrigðisráðherra landsins sakar íraska herinn um að svara ekki hjálparkalli hans, en bandarískar herþyrlur og hermenn urðu að bregðast við árásinni. Hann ræddi við fréttastofu Reuters í síma á meðan á árásinni stóð og sagði alla starfsmenn eiga á hættu að vera drepnir.

Sameinuðu þjóðirnar sendu frá sér skýrslu í gær þar sem segir að 120 óbreyttir borgarar deyi á degi hverjum í landinu af völdum ofbeldis.

mbl.is