Bandaríkjaher býr sig undir bakslag í kjölfar aftöku Saddams

Írakar dulbúa sig sem hryðjuverkamenn við athöfn sem haldinn var …
Írakar dulbúa sig sem hryðjuverkamenn við athöfn sem haldinn var í Sadr City í Bagdad í dag til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárása. AP

Frances Townsend, ráðgjafi George W. Bush Bandaríkjaforseta í heimavarnarmálum og fyrirbyggjandi aðgerðum gegn hryðjuverkum, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að ekkert bendi til þess að Bandaríkin standi frammi fyrir aukinni hryðjuverkaógn í upphafi nýs árs en að yfirvöld muni þó halda vöku sinni í þeim málaflokki.

Townsend sagði í viðtalinu, sem sýnt var á fréttastöð ABC, að bandarísk yfirvöld séu þó sérstaklega á verði gagnvart hugsanlegum hefndaraðgerðum verði Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseti, tekinn af lífi og að bandaríska herliðið í Írak búi sig nú sérstaklega undir bakslag í öryggismálum í Írak vegna aftöku hans.

„Við munum taka það alvarlega. Við höfum augljóslega herlið þar sem er í viðbragðsstöðu og búið undir það sem framtíðin ber í skauti sér. Hér heima er viðbúnaður okkar hins vegar sá sami og vant er,” sagði hún.

Townsend sagði jafnframt að þrátt fyrir að Bandaríkjamenn séu blessaðir með bjartsýni megi þeir ekki gleyma því að þeir eigi sér mjög hættulega óvini. „Við höfum verið það heppin að verða ekki fyrir fleiri árásum en það þýðir ekki að óvinir okkar hafi ekki lengur hug á því að drepa Bandaríkjamenn og að þeir séu ekki að reyna það,” sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina