Leifar af pólóníum-210 fundust á veitingastað í Lundúnum

Reuters

Leifar af geislavirka efninu pólóníum-210 hafa fundist á veitingastað í Lundúnum í tengslum við rannsókn á morði á rússneska njósnaranum fyrrverandi, Alexander Litvinenko.

Veitingastaðurinn sem um ræðir heitir Pescatori og er í Mayfair-hverfinu í Lundúnum. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Bretlandi er hreinsun lokið og engin hætta á smiti. Hefur veitingastaðurinn því verið opnaður á ný.

Litvinenko veiktist þann 1. nóvember og lést þann 23. nóvember á sjúkrahúsi í Lundúnum. Í ljós kom að honum hafði verið byrlað eitur, geislavirka efninu pólóníum-210. Á dauðastundinni ásakaði Litvinenko forseta Rússlands, Vladimir Pútin, um að hafa fyrirskipað að hann skyldi myrtur. Stjórnvöld í Rússlandi hafa staðfastlega neitað ásökunum njósnarans fyrrverandi.

Breska lögreglan rannsakar dauða Litvinenkos sem morð en hún hefur unnið að rannsókn málsins bæði í Bretlandi og Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert