Miklar aðgerðir boðaðar gegn vopnuðum hópum í Bagdad

Vegfarendur virða fyrir sér flak bifreiðar sem sprengd var nýlega …
Vegfarendur virða fyrir sér flak bifreiðar sem sprengd var nýlega í Bagdad. Verið er að undirbúa umfangsmiklar aðgerðir gegn vopnuðum hópum í borginni. AP

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sagði í dag að íraskar öryggissveitir væru með aðstoð Bandaríkjahers, að hefja umfangsmiklar aðgerðir gegn vopnuðum sveitum í Bagdad. Sagði forsætisráðherrann, að herforingjar hver í sínu hverfi í borginni, fái heimild til að framfylgja aðgerðaáætluninni eins og þeir telji best. Aðgerðirnar munu beinast gegn herskáum hópum bæði sjía-múslima og súnní-múslima.

Al-Maliki sagði, að ekki yrði liðið að pólitískir flokkar eða samtök reyndu að skipta sér af þessum aðgerðum og enginn gæti skýlt sér á bak við pólitísk tengsl.

Gert er ráð fyrir, að aðgerðirnar muni fyrst og fremst beinast að hinum svonefnda Mehdi-her, vopnuðum sveitum hliðhollum sjíla-klerksins Moqtada al-Sadrs en súnnítar halda því fram að dauðasveitir Mehdi-hersins hafi myrt hundruð manna á hverri viku í Bagdad. Einnig þykir ljóst að spjótin muni einnig beinast að uppreisnarmönnum úr röðum súnníta í höfuðborginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert