Segja Ganges of mengaða fyrir helgibað

Helgir menn í skrúðgöngu í Allahabad.
Helgir menn í skrúðgöngu í Allahabad. Reuters

Heilagir menn úr röðum indverskra hindúa hótuðu í dag að sniðganga svonefnda Ardh Kumbh trúarhátíð þar sem milljónir manna baða sig í ánni Ganges til að hreinsa sig af syndum. Segja mennirnir helgu, að áin sé orðin of menguð og krefjast þess að hún verði hreinsuð fyrir sunnudag en þá er næsti baðdagur trúarhátíðarinnar.

Þúsundir heilagra manna, svonefndir sadhus, stóðu fyrir mótmælaaðgerðum í dag, annan daginn í röð. „Vatnið í ánni er svo óhreint að enginn getur baðað sig í henni. Það er dökkrautt á litinn en Ganges var áður blágræn," sagði Shankaracharya Vasudvanand Saraswati, yfirmaður hindúaklausturs í borginni Allahabad þar sem trúarhátíðin er haldin.

Sagði Saraswati, að ef stjórnvöld grípi ekki til aðgerða neyðist þeir til að sniðganga hátíðina.

Trúarhátíðin hófst í síðustu viku en um er að ræða eina fjölmennustu samkomu á jörðinni. Þá baða hindúar sig í tveimur helgum ám, Ganges og Yamuna. Hátíðin er haldin á 6 ára fresti og táknar baráttu milli guða og djöfla um ódáinsveigar. Búist er við að um 70 milljónir manna sæki hátíðina þær sex vikur sem hún stendur yfir.

mbl.is