Ákvörðun um fjölgun bandarískra hermanna í Írak nýtur lítils fylgis

Ný skoðanakönnun bendir til þess að ákvörðun George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, um að senda fleiri hermenn til Íraks njóti lítils fylgis meðal Bandaríkjamanna. Samkvæmt skoðanakönnun sem USA Today og Gallup gerðu eru 61% á móti fjölgun hermanna á meðan 36% styðja fjölgun hermanna í Írak.

Könnunin, sem birt er í USA Today í dag, var gerð 5-7 janúar. Alls tóku 1.004 þátt í skoðanakönnuninni.

Samkvæmt henni eru 42% alfarið á móti því að Bandarískum hermönnum verði fjölgað tímabundið í Írak á meðan 19% voru frekar andvígir ákvörðun Bush. 26% styðja hvernig Bush tekur á málefnum Íraks en aldrei hafa jafn fáir staðið þétt við bakið á forsetanum í málefnum Íraks samkvæmt könnunum USA Today og Gallup.

Átta af hverjum tíu sem tóku þátt í skoðanakönnuninni töldu að ástandið í Írak sé verra heldur en stjórnvöld í Bandaríkjunum gerðu ráð fyrir að það yrði. Tæplega helmingur þátttakenda töldu að það skipti engu hve marga hermenn Bandaríkin myndu senda til Íraks, ekki tækist að ná fram markmiðum stjórnvalda.

Seint í gær greindi Bush frá því að tuttugu þúsund bandarískir hermenn yrðu sendir til Íraks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert