Komin í leitirnar eftir að hafa hafst við í frumskógum Kambódíu í 19 ár

Kona sem hvarf í frumskógum Norðaustur-Kambódíu þegar hún var barn er talin vera komin í leitirnar. Hefur hún þá hafst við í frumskóginum ein síns liðs í nítján ár. Faðir hennar segist bera ótvíræð kennsl á ör á bakinu á henni og andlitsfall hennar.

Konan sem talið er að sé Rochom P'ngieng er nú 27 ára, og talar ekkert skiljanlegt tungumál þannig að erfitt hefur reynst að staðfesta hvað drifið hefur á daga hennar.

„Það er eins og hún sé að hluta til manneskja og hluta til dýr,“ sagði Mao San, lögreglustjóri í Oyado-sýslu í Rattanakirihéraði í Kambódíu. „Hún er skrítin. Hún sefur á dagin og vakir á nóttunni.“

Faðir Rochom P'ngieng, sem tilheyrir Pnong-þjóðinni, er lögreglumaður í litlu þorpi, að því er Mao San segir, og fullyrðir hann að um dóttur sína sé að ræða.

Rochom P'ngieng var átta ára þegar hún hvarf árið 1988 þegar hún var að reka buffalóa á afskekktum slóðum í skóginum. Hún kom í leitirnar fyrr í mánuðinum eftir að þorpsbúi tók eftir því að matur var horfinn úr nestisboxi sem hann hafði skilið eftir skammt frá heimili sínu.

„Hann ákvað að vakta svæðið og sá þá nakta manneskju, sem leit út eins og frumskógarmaður, laumast til að stela hrísgrjónunum hans,“ sagði aðstoðarlögreglustjórinn í Oyado.

Hóað var í mannskap sem tókst að handsama konuna. Foreldrar hennar höfðu gefið upp alla von um að finna hana því að svo langt var um liði síðan hún hvarf.

Frá því að konan fannst hefur henni gengið illa að aðlagast venjulegu lífi. Yfirvöld hafa óskað eftir því að tekin verði DNA-sýni úr konunni og foreldrum P'ngieng til að athuga hvort raunverulega sé um dóttur þeirra að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert