Egypskur bloggari dæmdur í fjögurra ára fangelsi vegna móðgunar

Lögregla fygldi Soliman inn í dómshúsið í Alexandríu.
Lögregla fygldi Soliman inn í dómshúsið í Alexandríu. Reuters

Egypskur dómstóll hefur dæmt bloggara í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa móðgað íslamstrúna og forseta landsins. Þetta er í fyrsta sinn sem bloggari hefur verið dreginn fyrir dómstóla í Egyptalandi.

Bloggarinn, Abdel Kareem Soliman, gagnrýndi æðstu stofnun íslamstrúarbragðanna í Egyptalandi, al-Azhar háskólann, og forseta landsins, Hosni Mubarak, á bloggsíðu sinni, en á síðunni kallaði Soliman Mubarak einræðisherra.

Mannréttindasamtök segja að dómurinn sé „mjög harður“ og hann sendi „sterk skilaboð“ til þúsunda egypskra bloggara, segir á fréttavef BBC.

Réttað var yfir Soliman, sem er 22ja ára gamall, í heimabæ hans Alexandríu. Hann bloggar undir nafninu Kareem Amer.

Soliman, sem stundaði eitt sinn nám við al-Azhar háskólann, sagði stofnunina vera „hryðjuverkaháskóla“ að þá sakaði hann skólayfirvöld um að þau reyni að bæla niður frjálsa hugsun.

Hann var rekinn úr skólanum í fyrra og saksóknarinn þrýsti á að hann yrði dreginn fyrir dómstóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina