Sýrlenski herinn styrktur og færður nær landamærunum við Ísrael

Horft yfir til Sýrlands frá Bental-fjalli í Gólanhæðunum.
Horft yfir til Sýrlands frá Bental-fjalli í Gólanhæðunum. AP

Sýrlenski herinn hefur aukið herstyrk sinn við landamæri Sýrlands og Ísraels. Þá er herinn sagður hafa fengið bæði flugskeyti og langdrægar eldlaugar frá yfirvöldum í Íran að því er virðist til að bæta upp veikleika sýrlenska lofthersins.

“Sýrlenski herinn hefur verið styrktur með miklum framlögum frá Íran sem engin fordæmi eru fyrir á undanförnum árum,” segir Zeev Schiff, hernaðarsérfræðingur ísraelska blaðsins Haaretz. “Aðaláherslan hefur verið á flugskeyti og langdrægar eldflaugar til að bæta upp lélegar loftvarnir. Það lítur einnig út fyrir að Sýrlendingar hafi fært her sinn nær landamærunum við Ísrael í Gólanhæðunum," segir hann.

Schiff segir að svipuð þróun hafi átt sér stað í aðdraganda árásar Sýrlendinga og fleiri nágrannaríkja Ísraela á landið árið 1973.

Sýrlendingar hafa einnig staðið í samningaviðræðum við Rússa að undanförnu um kaup á miklu magni þróaðra flugskeyta sem aðallega eru notuð gegn skriðdrekum og er samkomulag í þeim sagt innan seilingar.

Sýrlendingar gera kröfu til Gólanhæðanna sem Ísraelar hernámu árið 1976 og innlimuðu í Ísraelsríki árið 1981. Friðarviðræður landanna sigldu í strand árið 2000 m.a. vegna deilna um það hversu stórum hluta Gólanhæðanna Ísraelar myndu skila Sýrlendingum samkvæmt hugsanlegu friðarsamkomulagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina