Maður handtekinn vegna tilraunar til að myrða varaforseta Íraks

Adel Abdul-Mahdi, varaforseti Íraks
Adel Abdul-Mahdi, varaforseti Íraks Reuters

Lögreglan í Bagdad handtók í morgun mann sem grunaður er um að tengjast tilraun til að myrða annan varaforseta Íraks, Adel Abdul-Mahdi. Íraskur embættismaður sagði undir nafnleynd fréttastofunni AP að handtakan hafi farið fram í kjölfar þess að upptökur úr öryggismyndavélar voru skoðaðar.

Sprengjunni mun hafa verið komið fyrir undir stól í ráðstefnusal, aðeins um tveimur metrum frá pontunni þar sem Abdul-Mahdi hélt ræðu sína. Varaforsetinn meiddist lítillega á fæti en var sleppt af sjúkrahúsi að lokinni skoðun.

Lögregla taldi í upphafi að sprengjunni hefði verið komið fyrir í pontunni, en fregnir af atburðinum í gær hermdu ýmist að hún hefði sprungið fyrir utan bygginguna eða að henni hefði verið komið fyrir í lofti hennar.

Enn er verið að rannsaka hvernig var farið að því að koma fyrir sprengju svo nálægt varaforsetanum án þess að tekið væri eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina