Plame sakar ríkisstjórn Bandaríkjanna um að komið hafi verið upp um hana

Valerie Plame, fyrrum starfsmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA, bar vitni fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í dag og sagði það hafa verið líkast því að vera slegin í magann þegar sagt var frá því að hún starfaði fyrir CIA. Bandaríkjastjórn bæri ábyrgð á því að komið var upp um hana, en hún var á þeim tíma að afla upplýsinga um vopnaeign Íraka, árið 2003. Þingnefndin rannsakar yfirsjónir og mistök sem gerð eru í bandaríska stjórnkerfinu.

Plame höfðaði í fyrra skaðabótamál á hendur varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheney, og Karl Rove, sem var einn nánasti stjórnmálaráðgjafi George W. Bush Bandaríkjaforseta, fyrir samsæri um að eyðileggja starfsferil hennar. Upplýsingaleki úr Hvíta húsinu varð til þess að það var gert opinbert að Plame, sem er eiginkona Joseph P. Wilsons, fyrrverandi sendiherra, væri starfsmaður leyniþjónustunnar CIA. Wilson gagnrýndi Íraksstríðið og í kjölfar þess var upplýsingum lekið út um Plame. Háttsettir menn í Hvíta húsinu eru grunaðir um að hafa hefnt sín á Wilson, með því að leka nafni Plame í fjölmiðla, en slíkur leki getur verið hættulegur starfsmönnum CIA.

Enginn hefur verið sakfelldur fyrir að koma upp um hana en það er hugsanlega refsivert brot. Lewis Libby, fyrrum skrifstofustjóri varaforseta Bandaríkjanna, Dick Cheneys, var fyrir skömmu fundinn sekur um meinsæri og um að hindra framgang réttvísinnar, vegna vitnisburðar hans í máli Plame.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert