Alþjóðasamfélagið sakað um að líta framhjá flóttamannavandanum í Írak

Íraskar konur í rústum höfuðstöðva byltingarhers Saddams Husseins, fyrrum Íraksforseta, …
Íraskar konur í rústum höfuðstöðva byltingarhers Saddams Husseins, fyrrum Íraksforseta, en fjöldi flóttamanna býr í rústunum. AP

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) segir alþjóðasamfélagið hafa litið framhjá þeim flóttamannavanda sem innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak fyrir fjórum árum hafi valdið. Þá segir hún yfirvöld í Sýrlandi og Jórdaníu þurfa á stórfelldri aðstoð að halda til að takast á við þann mikla fjölda flóttamanna sem komið hafa til landanna frá Írak. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Yfirvöld í Damaskus í Sýrlandi fóru nýlega fram á aðstoð við að mæta flóttamannavandanum en þau segja 1,2 milljónir íraskra flóttamanna nú vera í landinu. Þá er talið að 800.000 íraskir flóttamenn séu í Jórdaníu og að tvær milljónir manna sem flúið hafaheimili sín séu heimilislausar innan Íraks.

„Það hefur verið litið algerlega framhjá þeim áhrifum sem stríðið hefur haft á mannúðarmál, hinn mikla fjölda íraskra flóttamanna en allt að 1,9 milljónir flóttamanna eru nú heimilislausar í landinu vegna þess,” segir Peter Kessler talsmaður UNHCR. „Það er mikil þörf á því að yfirvöld láti til sín taka í þessum efnum. Það þarf að huga að heilbrigðis og menntamálum auk annarra þarfa. Það er einnig þörf á meiri matvælaaðstoð því fátæktin eykst stöðugt þar sem fólkið getur ekki unnið.” Þá segir hann að það sem flest fórnarlömb ofbeldisverkanna í landinu séu karlmenn hafi fátækum ekkjum og föðurlausum börnum fjölgað mjög.

Mest hefur verið um að súnnítar og sjítar hafi flúið frá blönduðum svæðum yfir á svæði þar sem þeir hafi verið í meirihluta en einnig hefur töluvert verið um að Írakar hafi flúið til sjálfstjórnarsvæða Kúrda í norðurhluta landsins þar sem ástand öryggismála hefur verið hvað best.

mbl.is