Lögregla telur sig hafa borið kennsl á árásarmanninn

Lögreglu í Virginíuríki telur sig hafa borið kennsl á skilríkjalausan karlmann, sem skaut 32 til bana og særði 29 í Virginia Tech háskólanum í Blacksburg í dag og sjálfan sig í kjölfarið. Fórnarlömbin voru bæði nemendur og starfsmenn skólans. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglu í kvöld og jafnframt, að ekki yrði upplýst um sinn hver maðurinn er.

Ekki fengist skýringar á því hvers vegna ekki var brugðist skjótar við eftir að maðurinn gerði fyrst skotárás á heimavist á háskólasvæðinu og hvers vegna enn voru nemendur í skólastofum tveimur tímum síðar þegar maðurinn lét aftur til skarar skríða.

Lögregla segist raunar ekki geta staðfest, að sami maður hafi verið að verki í bæði skiptin. Fram kom, að lögregla tók karlmann til yfirheyrslu eftir fyrri skotárásina en sá maður þekkti annað fórnarlambið, sem lét lífið í þeirri árás. Lögreglustjóri vildi ekki gefa frekari upplýsingar um þetta.

Bandarískir fjölmiðlar hafa eftir nemendum, að engar opinberar tilkynningar eða aðrar viðvaranir hafi verið gefnar á háskólasvæðinu eftir fyrstu skothríðina þar sem tveir létu lífið. Tveimur tímum síðar sendi skólastjórnin tölvupóst til námsmanna þar sem þeir voru beðnir um að halda kyrru fyrir þar sem þeir væru staddir en á svipuðum tíma hóf árásarmaðurinn skothríð í byggingu sem hýsir verkfræðideild skólans. Þar létu 30 lífið.

Fram kom á blaðamannafundi lögreglu, að þegar lögregla var kölluð til eftir síðari skothríðina kom hún að læstum dyrum. Þegar lásinn hafði verið brotinn komu lögreglumenn að skotmanninum látnum og hafði hann ráðið sér bana. Tvær byssur fundust á staðnum.

Charles Steger, rektor skólans, sagði að skólastjórnendur hefðu haldið, að fyrsta skothríðin væri afleiðing deilna sambýlisfólks og að árásarmaðurinn hefði flúið á brott. Enginn ástæða hefði verið til að ætla að önnur skotárás yrði gerð.

Steger, sagði að verið væri að láta ættingja þeirra, sem létu lífið, vita. Þá er lögregla enn að rannsaka svæðið þar sem skothríðin var. Lögregla staðfesti í kvöld, að nokkur lík hefðu ekki enn verið flutt á brott og enn væri verið að bera kennsl á þau.

Þá er skólinn að skipuleggja áfallahjálp fyrir nemendur.

Einn Íslendingur, Dagmar Kristín Hannesdóttir, stundar nám við skólann. Hún sagði við mbl.is í dag, að hún hefði verið að halda fyrirlestur í byggingu í nokkurri fjarlægð frá húsunum þar sem árásirnar voru gerðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert