Morðinginn í Virginíu var kóreskur námsmaður

Bandaríski fáninn í hálfa stöng á skólalóðinni í Virginíu.
Bandaríski fáninn í hálfa stöng á skólalóðinni í Virginíu. Reuters

Staðfest var á blaðamannafundi, sem stendur yfir í Virginia Tech háskólanum í Bandaríkjunum, að maðurinn, sem myrti 32 í skólanum í gær og svipti sig síðan lífi, hafi heitað Cho Seung-Hui og verið frá Suður-Kóreu. Hann var 23 ára, lagði stund á enskunám og bjó á heimavist skólans.

Bandaríska ABC sjónvarpsstöðin segir á fréttavef sínum, að fingraför á byssunum, sem notaðar voru við skotárásina í gær, hafi verið borin saman við fingraför á skjölum sem voru í vörslu bandarísku innflytjendastofnunarinnar.

Stjórnendur Virginia Tech höfðu áður staðfest, að maðurinn væri frá Asíu og hefði verið námsmaður við skólann og búið á heimavist á skólasvæðinu. Bandarískir fjölmiðlar höfðu sagt að maðurinn væri líklega kínverskur.

Fram kom á blaðamannafundinum, að sama byssan hefði verið notuð við báðar skotárásirnar, sem gerðar voru á skólasvæðinu í gær, en fram að því hafði lögregla ekki viljað útiloka að um tvo árásarmenn hafi verið að ræða. Þá kom einnig fram, að Cho tengist ekki sprengjuhótunum sem bárust skólanum í síðustu viku, eins og líkum hafði verið leitt að.

Alls fannst látið fólk í fjórum skólastofum í verkfræðibyggingu skólans. Cho fannst látinn í einni þeirra. Engar vísbendingar eru sagðar um að hann hafi átt vitorðsmenn en lögregla er þó enn að rannsaka hvort einhver hafi veitt honum aðstoð.

Steve Flaherty, lögreglustjóri í Virginíu í ræðustóli á blaðamannafundi í …
Steve Flaherty, lögreglustjóri í Virginíu í ræðustóli á blaðamannafundi í dag. Til vinstri eru Charles Steger, rektor Virginia Tech og Wendell Flinchum, lögreglustjóri háskólasvæðisins. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert