127 látnir í fjórum sprengjum í Bagdad í dag

Bandarískur hermaður í Bagdad.
Bandarískur hermaður í Bagdad. Reuters

127 létust í dag og fjölmargir særðust í fjórum bílsprengingum víða um Bagdad og einni árás Bandaríkjamanna á uppreisnarmenn. Þetta er einn mannskæðasti dagur í borginni síðan Bandaríkjamenn og Írakar hertu þar öryggisgæslu um miðjan febrúar.

Mannskæðasta sprengjuárásin í Bagdad í dag átti sér stað þegar bílsprengja sprakk á Sadriyah markaðinum, og létust 82 og 94 særðust. Á meðal þeirra látnu voru verkamenn sem höfðu unnið við uppbyggingu markaðarins eftir að 137 létust þar í sprengjuárás í febrúar síðastliðin.

Klukkutíma áður létust 30 manns og 45 særðust þegar bíl hlöðnum sprengiefni var keyrt á íraska lögreglustöð sem er við inngang Sadr City, sem er stærsta borgarhverfi síta-múslima.

Önnur bílsprengja sprakk nálægt einkareknum spítala í Karradah í morgun og við það létust 11 manns og 13 særðust.

Fjórða sprengjan var skilin eftir í sendibíl og drap 4 manneskjur og særði 6 aðrar. Fjórir lögreglumenn voru líka drepnir í eftirlitsferð sinni í suðurhluta Bagdad í dag.

Vestan við Bagdad drápu hersveitir Bandaríkjamanna 5 grunaða uppreisnarmenn og handtóku 30 aðra.

Síðustu vikurnar hafa sprengjuárásir verið algengar í Bagdad, þrátt fyrir hertar öryggisaðgerðir og er skemmst er að minnast sprengingarinnar í íraska þinghúsinu sama dag og brú var sprengd yfir Tígrisfljót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert