Wolfowitz segir af sér embætti

Paul Wolfowitz yfirgefur hús sitt í Maryland í dag.
Paul Wolfowitz yfirgefur hús sitt í Maryland í dag. Reuters

Paul Wolfowitz tilkynnti nú í kvöld, að hann muni segja af sér embætti forstjóra Alþjóðabankans um mánaðamótin júní og júlí en þá lýkur fjárhagsári bankans. Sagði Wolfowitz í yfirlýsingu, að hann gerði þetta með hagsmuni bankans í huga en forstjórinn hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að útvega unnustu sinni, sem starfaði hjá bankanum, launa- og stöðuhækkun.

Wolfowitz tók við embætti forstjóra Alþjóðabankans um mitt árið 2005. Sú ráðning var umdeild en Wolfowitz, sem áður var aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, var einn helsti arkitekt Íraksstríðsins.

„Hann fullvissaði okkur um, að hann hefði farið eftir siðareglum og talið sig hafa verið að tryggja hagsmuni stofnunarinnar og við föllumst á það," segir í yfirlýsingu frá stjórn bankans.

Ljóst var hins vegar að Wolfowitz var ekki sætt eftir að sérstök nefnd, sem bankaráðið skipaði, komst að því að hann hefði brotið reglur, sem eiga að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra innan bankans, þegar hann útvegaði Shaha Riza, unnustu sinni, launahækkun og tímabundið starf í bandaríska utanríkisráðuneytinu.

Bankaráðið sagði hins vegar ljóst, að mörgum hefðu orðið á mistök þegar bankinn samþykkti samninginn við Riza.

Wolfowitz, sem hefur undanfarnar vikur barist fyrir að halda starfinu, sagði í eigin yfirlýsingu, að hann væri ánægður með að bankaráðið hefði fallist á þær skýringar hans, að hann hefði haft hagsmuni bankans í huga og jafnframt verið að vernda rétt mikils metins starfsmanns bankans. Nú þjóni það hins vegar hagsmunum bankans best, að nýir leiðtogar stýri verkefnum hans.

Áfall fyrir Bush
Mál þetta þykir áfall fyrir George W. Bush, Bandaríkjaforseta, sem skipaði Wolfowitz en hefð er fyrir því að Bandaríkjastjórn tilnefni menn í embætti forstjóra bankans.

Hvíta húsið sagði í yfirlýsingu í kvöld, að bandarísk stjórnvöld hefðu kosið að Wolfowitz yrði áfram í embætti en forsetinn hefði samt fallist á ákvörðun Wolfowitz. Forsetinn muni bráðlega tilkynna hvern hann tilnefni sem eftirmann bankastjórans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka